Damien Peyret - SUND & GUFA
Damien Peyret er franskur kvikmyndagerðarmaður og ljósmyndari. Hann hefur verið mjög ötull við að taka ljósmyndir í um tíu ára skeið og notar ljósmyndaverk í heimildamyndum sínum. Í sýningunni Sund & Gufa sem nú er sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur sýnir hann Polaroid myndir af fólki í Sundlaug Kópavogs ásamt stuttmyndinni A Taxi for Reykjavik frá árinu 2001. Myndin var gerð fyrir fransk-þýsku sjónvarpsstöðina Arte og var valin á kvikmyndahátíðina í Locarno. Henni hefur verið lýst sem hvorki raunverulegri heimildamynd né hreinum tilbúningi heldur einhvers staðar á milli mannlýsingar og skissu þar sem gefið er í skyn hvað er raunverulegt án þess þó að fletta hulunni alveg af því.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Peyret er ljósmyndari sem staðsetur sjálfan sig í ákveðinni fjarlægð frá raunveruleikanum. Fyrst gefur hann sér tíma til að virða fyrir sér hinn heillandi heim heitra hvera og að því búnu sökkvir hann sér niður í þessa ,,leikmynd” sem er í senn stórbrotin og hversdagsleg, þar sem hið sýnilega og hið ósýnilega renna saman í eitt.
Í ljósmyndum sínum sviptir hann ekki hulunni af öllu heldur tæpir á hlutunum. Og það sem meira er, þar sem hann horfir, ekki bara á þá með augunum heldur einnig öðrum skynfærum, er sérhverjum áhorfanda frjálst að hugleiða þá sinn hátt.
Damien Peyret er fæddur 1961 í Frakklandi, býr og starfar í París. Eftir að hafa lokið námi í listhönnun stofnaði Peyret tímaritið Trajectoire Visuelle og hóf störf í auglýsingaiðnaðinum sem stílisti. Frá árinu 1997 hefur hann beint kröftum sínum að framleiðslu og ljósmyndun, t.d. auglýsingar og stuttmyndir fyrir sjónvarpsstöðvarnar Arte og Canal +. Kvikmynd hans Un taxi pour Reykjavik hefur verið valin á margar af helstu alþjóðlegu kvikmyndahátíðunum og ljósmyndaverk hans eru reglulega til sýnis í Spree Gallery í París.