15.09.2007 to 25.11.2007

DAAGBLAÐIÐ VÍÍSIR! 1960 – 2000

Ljósmyndir hafa áhrif á það hvernig við skynjum heiminn og ekki síður það hvernig við skynjum fortíðina. Rithöfundurinn Susan Sontag hefur jafnvel staðhæft að vandamálið sé ekki það „að fólk muni í gegnum myndir heldur að það muni einungis eftir myndinni sjálfri“. Hér er Sontag öðru fremur að fjalla um fréttaljósmyndir sem síðustu áratugi hafa verið fyrirferðamiklar í upplifun okkar af atburðum samtímans og eru meðal helstu sögulegu heimilda okkar tíma um samfélagið.

Daagbladid Víísir 1960 - 2000

Í þessu ljósi er forvitnilegt að velta því fyrir sér hvaða íslensku fréttamyndir komi upp í hugann þegar við rifjum upp nánustu fortíð okkar. Það muna sjálfsagt margir eftir að hafa séð ljósmyndir af síðhærðu fólki haldandi á mótmælaspjöldum með slagorðum eins og „Ísland úr NATO – herinn burt“ og „Kúkum á kerfið“, eða af dönsku dátunum sem stóðu með gömul handrit á hafnarbakkanum í Reykjavík. Og þá ekki síður myndunum af hvalskipunum sem möruðu í hálfu kafi einn svalan nóvembermorgun 1986 eftir óvænta heimsókn hvalaverndunar¬sinna? Flestir sem slitið hafa barnskónum muna eftir leiðtogafundinum sama ár og bjórdeginum mikla 1989.

Þessar myndir og um 150 aðrar af vettvangi íslensks þjóðlífs eru á sýningunni DAAGBLAÐIÐ VÍÍSIR! sem nú er sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og er heiti sýningarinnar bein tilvísun í óm blaðasalanna sem lengi þótti órjúfanlegur hluti borgarbragsins. Allar gefa þær okkur einhverja mynd af samfélaginu sem þær eru sprottnar úr, og segja okkur sögur af fólki, sögur af landi – Íslandi.

Fréttaljósmyndun er „blaðamennska með annað áhald í höndunum heldur en penna“, segir Gunnar V. Andrésson fréttaljósmyndari til 40 ára, og vísar þar í hið kvika auga fréttaljósmyndarans sem ætíð leitast við að fanga fréttnæm augnablik, „segja frásögn, fyrst og fremst fyrir daginn í dag“. Afraksturinn skilar sér á síður dagblaðanna í formi myndrænna frásagna, nokkurs konar samræðna samtímans við sjálfan sig.

Þessi stöðuga frásagnarleit ljósmyndarans á sér undursamlega hliðarverkun því þegar efni dagsins er safnað saman, dag eftir dag og ár eftir ár, verður til hafsjór dýrmætra heimilda um samfélagið. Sýningin DAAGBLAÐIÐ VÍÍSIR! er því nokkurs konar hliðarsproti eða ávöxtur hinnar sífelldu frásagnarleitar því allar myndirnar á sýningunni koma úr blaðaljósmyndasafni 365 miðla, sem Ljósmyndasafn Reykjavíkur tók við til varðveislu sumarið 2006. Safnið sem var eitt stærsta ljósmyndasafn í einkaeigu á Íslandi inniheldur ljósmyndir og filmur frá síðdegisblöðunum Vísi (1961 – 1981), Dagblaðinu (1975 – 1981) og DV (1981 – 2002). Einnig eru í safninu pappírskópíur blaðanna frá sama tímabili ásamt filmum frá fyrsta starfsári Fréttablaðsins (2001-2002).

Þótt myndefni sýningarinnar sé æði fjölbreytt og myndirnar margar, gefur sýningin litla hugmynd um hið gríðalega umfang blaðaljósmyndasafnsins því varlega má áætla að í filmusafninu séu um 140 – 150 þúsund myndatökur sem eru u.þ.b. 2,2 til 2,4 milljónir myndaramma. Pappírskópíurnar eru ekki færri en 200 þúsund. Samtals eru því í safninu u.þ.b. 2,4 til 2,6 milljónir mynda, flokkaðar í ríflega 800 efnisorðaflokka, ómetanlegar heimildir um 40 ára tímabil Íslandssögunnar. Þær elstu eru frá árinu 1961 þegar fyrsti ljósmyndarinn, Ingimundur Magnússon, var ráðinn á Vísi og þær yngstu frá árinu 2002 þegar myndatöku með filmu var hætt. Einungis lítið brot þessara ljósmynda endaði á síðum dagblaðanna, engu að síður eru hinar óbirtu myndir eru í mörgum tilvikum engu síðri ljósmyndir en þær sem voru birtar.

Info

Info

Reykjavík Museum Of Photography

Grófarhús, Tryggvagata 15, top floor

101 Reykjavík

Tel: (+354) 411 6390

Contact

For groups (10+) bookings please send a request to:

Contact

Opening Hours

Opening Hours

Mon-Thu 10:00-18:00

Fri 11:00-18:00

Weekends 13:00-17:00

Christmas & New Year

Closed 24-26 Dec & 31 Dec-1 Jan.

Easter

Closed from Thurs-Mon

First Day of Summer

Closed 20 April

Labour Day

Closed 1 May

Ascension Day

Closed 13 May

Pentecost

Closed 23-24 May

The National Day

Closed 17 June

Admission

Admission

Adults

1,200 ISK

Students with student card

820 ISK

Children (0-17 years)

Free

Disabled

Free

Reykjavík Culture Year Pass

7,450 ISK

City Card holders

Free

Sign up to our mailing list

We will send you information about our events