back

Handritaspjall kl.14 alla sunnudaga í apríl.

29.03.2016 X

Næstu fjóra sunnudaga munu fræðimenn af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum spjalla um handrit á sýningunni Landnámssögur – arfur í orðum sem staðsett er í Aðalstræti 16 þar sem Landnámssýningin er einnig til húsa.

Landnámssýning - Handrit

Sýningin Landnámssögur - arfur í orðum segir sögur frá landnámi Íslands. Sögur sem hafa lifað með þjóðinni í árhundruð og varðveittar eru í handritum sem eiga rætur að rekja aftur til 12. aldar. Einstakt menningarlegt gildi íslensku handritanna er viðurkennt á alþjóðavísu og er handritasafn Árna Magnússonar á heimsminjaskrá UNESCO.

Fræðimennirnir mæta á sunnudögum kl. 14 og ausa af brunni visku sinnar í um 20 mínútur í senn. Gestum mun gefast kostur á að varpa fram spurningum um efni fyrirlestrarins. Þessi dagskrá fer fram á íslensku.

3. apríl. Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskumfræðum ríður á vaðið og fjallar um landnámssögur í Íslendingabók, Landnámu og Kjalnesingasögu.

10. apríl. Gísli Sigurðsson talar um landnám Ingólfs, írsk áhrif í Kjalnesinga sögu og örnefni frá Ljóðhúsum í Suðureyjum.

17. apríl. Guðvarður Már Gunnlaugsson ræðir um hið merkilega fyrirbæri fornbréf, m.a. bréfið sem er á sýningunni.

24. apríl. Guðrún Ása Grímsdóttir spjallar um Landnámabók.

Frítt er inn á handritasýninguna Landnámssögur - arfur í orðum á meðan sýningarspjallinu stendur.

Allir velkomnir!