SKOTIÐ 31.03.2016 to 31.05.2016

Á mótum tveggja tíma

Díana Júlíusdóttir

Á mótum tveggja tíma. Ljósmynd Díana Júlíusdóttir.
Á mótum tveggja tíma

Díana fæddist á Ísafirði árið 1973 og er ættuð frá Suðureyri við Súgandafjörð en ólst upp í Reykjavík.

Fjöll og stórfenglegt landslag hefur alltaf heillað Díönu og hefur hún leitast við að beina linsunni að hvoru tveggja. Í fjallgöngum og ferðalögum á vit einstakrar náttúru hefur hún túlkað það sem fyrir augu ber með lýsingu á fólki og náttúru og samspilinu sem skapast þar á milli. 

Díana stundaði nám í Ljósmyndaskólanum og tók með öðrum nemendum þátt í ljósmyndasýningu skólans árið 2012.  

Hún var ásamt ellefu öðrum ungum samtímaljósmyndurum valin til að taka þátt í sýningunni Samtímalandslagið (2013-2014) á Ljósmyndasafni Reykjavíkur.  Einnig hélt hún sína fyrstu einkasýningu í Turninum árið 2013. 

Díana hefur hér heima og utan vakið athygli fyrir landslagsmyndir og að nálgast náttúruna á annan hátt en tíðkast hefur. Ljósmyndin Angel sem tekin var á Hvannadalshnúk árið 2012 vann silfurverðlaun í alþjóðlegri ljósmyndakeppni í San Fransisco árið 2014 og var þar til sýnis í Gallery 17.  Í bígerð er útgáfa ljósmyndabókar með ljósmyndum sem teknar voru á göngu á Hvannadalshnúk og sýning í Anarkíu Gallery í Kópavogi í mai næstkomandi. 

Myndirnar á sýningunni leitast við að túlka á ljóðrænan hátt hið einangraða þorp Kulusuk sem oft er kallað dyrnar að Austur-Grænlandi. Börnin í þorpinu eru sérstakt viðfangsefni myndanna en framtíð þeirra er óviss sökum mikillar fólksfækkunar á svæðinu. Sýningin er afrakstur innblásturs sem löngu yfirgefin hús, börn að leik og stórtbrotið landslag veittu á Grænlandi. Börnin eru hamingjusöm, kröftug, brosmild og nægjusöm. Þorpið allt er leikvöllur þeirra og hefur skírskotun í báðar áttir, til horfinnar fortíðar og óráðinnar framtíðar. Landslagið í bakgrunni er í senn ógnvekjandi og rómantískt.