Kubburinn 16.01.2016 to 15.05.2016

FRIÐGEIR

Brot úr heimildamynd um Friðgeir eftir Þorgeir Guðmundsson

Ljósmynd af Þorgeiri Guðmundssyni tekin af Friðgeiri Helgasyni

Ég sýni nú valin brot úr heimildamynd um gamla vin minn Friðgeir Trausta Helgason. Tilefnið er sýning hans STEMNING í Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Friðgeir hefur eiginlega fylgt mér, þó oftast í mikilli fjarlægð, í gegnum allt lífið. Þegar ég bjó ungur maður í San Francisco þá bjó hann í Los Angeles og þegar ég var í námi í New York var hann kominn til New Orleans. Þá voru oft fagnaðarfundir.

En oft var hann týndur og tröllum gefinn en dúkkaði svo upp þegar hans var síst von. Rokkarinn og sukkarinn var svo orðinn kokkurinn á fínustu veitingahúsum og svo miklu síðar upprisinn af algjörum botni og orðinn listamaðurinn, ljósmyndarinn og ferðalangurinn.

Kveikjan að myndinni var sennilega löngunin til að komast aftur “on the road” með þessum gamla ferðafélaga og sjá hvar við myndum dúkka upp næst. Segja skrautlega sögu magnaðrar persónu án þess að festast í bakkgírnum heldur keyra áfram á vit nýrra ævintýra. Vegferðinni er hvergi nærri lokið og framhaldið ekki augljóst, en samsetning þessara brota nú virðast á einhvern dulúðugan hátt ætla að vísa veginn.

Þorgeir Guðmundsson