Viðey 18.09.2015

Áfangar

Áfangar eftir Richard Serra er umhverfislistaverk sem leggur undir sig alla Vestureyju og setur sterkan svip á ásýnd hennar og umhverfi.

Milestones by Richard Serra
Áfangar, Richard Serra,1991

Í ár er aldarfjórðungur síðan umhverfisverkið Áfangar var sett upp í Vesturey Viðeyjar. Listahátíð í Reykjavík 1990 átti frumkvæðið að uppsetningu verksins en Reykjavíkurborg stóð fyrir byggingu þess.

Áfangar er umhverfislistaverk sem leggur undir sig alla Vestureyju og setur sterkan svip á ásýnd hennar og umhverfi. Verkið er úr stuðlabergi og vísar þannig til jarðsögu eyjarinnar en í henni má finna stuðlabergsinnskot og aðrar stórbrotnar bergmyndanir. Verkið samanstendur af 18 stuðlabergsdröngum sem standa tveir og tveir saman og mynda hring um eyjuna.  Annar dranginn í hverju pari er 3 metrar á lengd og staðsettur í 10 metra hæð en hinn er 4 metrar og staðsettur í 9 metra hæð. Toppar dranganna eru því allir jafnir, 13 metrum yfir sjávarmáli. Mislangt er á milli dranganna en bilið ákvarðast af landhallanum. Verkið vísar þannig í legu landsins. Ef hallinn er mikill standa drangarnir þétt saman en annars er lengra á milli. Allir drangarnir eru sýnilegar af hæsta punkti eyjunnar, sem er í 18 metra hæð.

Verkið Áfangar er einstakt í ferli Serra, bæði vegna umfangs þess og efnis. Serra er best þekktur fyrir stálskúlptúra þar sem lagt er útaf þéttbýlu borgarumhverfi samtímans. Tengslin við umhverfið eru sem rauður þráður í verkum Serra en í Áföngum er umhverfið ekki manngert. Óhöggvinn náttúrusteinninn rennur saman við óspillt umhverfi Vestureyjar þannig að úr verður órjúfanleg heild. Það er eins og að drangarnir hafi sprottið uppúr stuðlaðu grágrýtinu sem myndar eyjuna. Fyrir bragðið verður tími verksins annar en tími stálverkana—tími jarðfræðinnar fremur en tími borgarlífsins. En um leið tengist verkið þeim tíma sem áhorfandinn upplifir á göngu sinni um eyjuna. Reynsla hans felist í því að ganga og horfa eða, eins og Serra segir, að „láta þessa steindranga mæla landið og mæla tengsl áhorfandans við sitt eigið fótatak“. Orðið „áfangi“ merkir vegalengd milli tveggja áningarstaða en vísar líka til áningarstaðarins sjálfs. Stuðlabergspörin mynda áningarstaði á göngu áhorfandans. Hann stoppar um stund, ekki til að skoða hvern dranga fyrir sig eins og hefðbundna höggmynd, heldur til að skoðar umhverfið sem drangarnir ramma inn—fjall í fjarska, eyju, jökul, borgarlandslag (Esju, Engey, Snæfellsjökul, miðbæ Reykjavíkur). Þannig hverfist verkið um tengslin í náttúrunni fremur en hverja einingu fyrir sig. Það dregur ekki athyglina að sjálfum sér held að umhverfinu sem það opinberar.