Fornleifavernd

Borgarsögusafn Reykjavíkur gegnir margþættu hlutverki á sviði fornleifaverndar og varðveislu menningarminja. Safnið sinnir rannsóknum á byggðasögu og byggingararfi borgarinnar og heldur fornleifaskrá þar sem er að finna upplýsingar um skráðar fornleifar í Reykjavík. Afrakstur rannsókna og skráninga safnsins er birtur í byggða- og fornleifaskýrslum sem gefnar eru út í skýrsluröð safnsins. Borgarsögusafn vinnur náið með Minjastofnun Íslands og Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar að málum sem varða fornleifavernd, skipulag og framkvæmdir í borginni.

Fyrirspurnir um fornleifar í Reykjavík má senda á: minjavarsla@reykjavik.is

Fornleifaskrá Reykjavíkur

Á Borgarsögusafni er haldið utan um Fornleifaskrá Reykjavíkur. Megintilgangurinn með fornleifaskrá er að safna á einn stað upplýsingum um allar fornleifar í Reykjavík.

Samkvæmt lögum um menningarminjar er skylt að skrá fornleifar og gera könnun á eldri byggð þegar unnið er að skipulagi. Fornleifaskrá Reykjavíkur var fyrst gefin út árið 1995 og innihélt hún um 200 minjastaði, en stöðugt er unnið að endurskoðun hennar og nú (2015) nær hún yfirr um 3000 minjastaði, sem geyma bæði fornleifar og yngri menningarminjar.

Í fornleifaskrá er að finna helstu upplýsingar um fornleifarnar. Skráin er nú aðgengileg almenningi í menningarsögulegu gagnasafninu Sarpi, auk þess sem hægt er að skoða staðsetningar hluta þeirra á Borgarvefsjá.

Fornleifar eru skráðar eftir jörðum eins og jarðaskipting var um 1835-1845. Við skráningu minja jarðar er rýnt í örnefnaskrár, kort og aðrar ritaðar heimildir, auk þess sem vettvangsskoðun fer fram. Eldri minjastaðir kunna að hafa raskast eða jafnvel eyðst vegna seinni tíma framkvæmda. Enn geta þó leynst í jörðu fornleifar og ætti því að sýna aðgát við jarðrask nálægt minjastöðum.

Við skráningu menningarminja eru sögu jarðanna gerð skil og varpað ljósi á þætti sem gefa upplýsingar um sögu byggðar og búskapar í nágrenninu. Þá er tegundum og hlutverki minja lýst. Ef minjar finnast ekki á yfirborði eru þær skráðar sem heimild, en á þeim stöðum eru líkur á því að minjar sé enn að finna í jörðu. Í lokin er vísað í þær heimildir sem hafa gefið tilefni til skráningar fornleifa.

Við staðsetningu á minjum er gömlum kortum og loftmyndum varpað (strekkt) á grunn sem sóttur er í Landsupplýsingakerfi Reykjavíkurborgar og minjarnar hnitsettar sem punktar í kerfinu ISN 93. Gögnin er síðan færð inn á skipulagsuppdrætti.

Borgarsögusafn - Túnkort
Túnakort af Árbæ frá árinu 1916 varpað loftmynd frá árinu 1914.

Minjarnar eru flokkaðar eftir aldri. Elstu minjarnar eru fornleifar í rauðum flokki og eru þær friðaðar. Yngri minjar eru merktar með gulum og grænum lit, en herminjar eru flokkaðar sérstaklega og merktar bláum lit. Aldur er áætlaður út frá útliti og upplýsingum um sögu byggðar. 

Borgarsögusafn - Flokkun minja
Aldursflokkun minja við Öskjuhlíð og í nágrenni.

Fornleifaskráning er í raun skilyrði þess að hægt sé að vinna markvisst að varðveislu fornleifa í borgarlandinu. Skráin er mikilvægt tæki við minjavörslu og er lögð til grundvallar við gerð byggða- og fornleifakannana sem eru ein af forsendum skipulagsgerðar í borginni. Fornleifaskráin er um leið undirstaða þeirra rannsókna á byggðasögu og byggingararfi Reykjavíkur sem unnar eru á Borgarsögusafni Reykjavíkur og er grunnur sem nýst getur almenningi, nemendum, fræðimönnum og öðrum sem vilja sækja sér upplýsingar um einstakar fornleifar eða sögu og þróun byggðar í borginni.