18.05.2013 to 15.09.2013

SPESSI - Nafnlaus Hestur

Sýningin Nafnlaus hestur, samanstendur af portrettmyndum af mótorhjólaköppum sem ljósmyndarinn Spessi tók á ferðalagi sínu um Bandaríkin á tímabilinu 2011 til 2012. Markmiðið með portrettmyndunum er að skrá og veita innsýn inn í þann sérstaka menningarkima sem mótorhjólaheimurinn er. Því er um að ræða eins konar þjóðfræðilega úttekt á þessum sérstaka „ættbálki“ þar sem lagt var upp með að kynnast betur uppruna mótorhjólamenningarinnar. Spessi ferðaðist ýmist á mótorhjóli eða á pallbíl. Hann hélt sig þó aðallega við miðríkin Kansas, þar sem hann bjó í eitt ár, Arkansas, Tennessee, Mississippi, og Louisiana – fátækustu fylki í Bandaríkjanna. Mótorhjólamenningin sem slík rekur uppruna sinn til þess atburðar þegar fjöldi mótorhjólamanna kom saman í smábænum Hollister í Kaliforníu á þjóðhátíðardaginn 4. júlí 1947. Margir þeirra voru fyrrverandi hermenn sem höfðu ekki náð að fóta sig í samfélaginu eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Þeir hræddu líftóruna úr bæjarbúum og lögreglan kallaði til liðsauka frá öðrum umdæmum. Þetta var í fyrsta sinn sem þessi hópur – mótorhjólafólkið – komst í kastljósið og meðal annars var kvikmyndin The Wild One með Marlon Brando, byggð á atburðunum í Hollister.

Nafnlaus hestur

Þótt skipulagðir hópar komist oftast í fréttir eru þeir aðeins einn angi af miklu stærri menningarheimi venjulegs bandarísks almúgafólks – oft utangarðs – sem tengir mótorhjólin við löngun sína eftir sjálfstæði og frelsi. Sýningin Nafnlaus hestur sýnir þetta fólk og umhverfi þess, lífið og samfélagið.

Eins og Spessi segir sjálfur: „Sýningin er öðrum þræði eins konar dagbók um ferðalög mín í félagsskap þeirra, um vinina sem ég eignaðist og allt sem þeir hafa sýnt mér og kennt með því að gefa mér tækifæri til að gægjast inn í þennan afmarkaða og á stundum lokaða heim.“

Um þessar mundir vinnur Spessi einnig að samnefndri heimildarmynd um mótorhjólamenninguna ásamt Bergsteini Björgúlfssyni kvikmyndagerðarmanni þar sem við fáum að kíkja á bak við tjöldin og komast í tæri við stemninguna í kringum myndatökurnar.

Spessi er einn þekktasti ljósmyndarinn á Íslandi. Sérstaða hans er fólgin í ferskum og frumlegum tökum á viðfangsefnunum sem spanna frá auglýsinga- og portrett- ljósmyndun til listrænna verkefna. Sem dæmi hafa myndir hans prýtt leiðara í prentmiðlum stórblaðanna New York Times og Politiken. Sýningar hans hafa jafnan vakið mikla eftirtekt sem og þær ljósmyndabækur sem hann hefur sent frá sér.

Spessi hefur einnig verið ötull á sviði ljósmyndafræðslu, sem fyrirlesari við LHÍ og víðar og gestakennari í Ljósmyndaskólanum, svo fátt eitt sé nefnt.

Hann lærði ljósmyndun við AKI – Academie voor Beeldende Kunst í Hollandi og hefur haldið sýningar víða hérlendis sem erlendis frá árinu 1996.

Sýningin var á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2013