23.01.2010 to 09.05.2010

Jóna Þorvaldsdóttir - SKYNJANIR

Jóna Þorvaldsdóttir ljósmyndari er þekkt fyrir að nota sígildar ljósmyndunaraðferðir (alternative photography) við gerð verka sinna en þær voru vinsælar á upphafstímum ljósmyndunar. Auk hinnar hefðbundnu silfur-gelatín prentunar notar Jóna palladíum-platínum aðferðina og bromoil blektækni og nýtur þar töluverðrar sérstöðu hér á landi. Þess má geta að ljósmyndarinn Pétur Brynjólfsson (1881-1930) notaði platínu-palladíum aðferðina við kóperingu fram að fyrri heimsstyrjöld.

Skynjanir

Jóna tekur ljósmyndir sínar á gamla blaðfilmuvél og notar filmur sem eru í 8×10 formati þ.e. 20×25 cm að stærð. Filmurnar framkallar hún í bökkum og kontaktprentar svo myndirnar á gæða vatnslitapappír undir útfjólubláu ljósi eða sólarljósi. Myndheimur Jónu er sveipaður dulúð og mýkt og vinnsla myndanna með þessum gömlu aðferðum eykur ennfremur á þá eiginleika.

Um verk sín segir Jóna: „Ég legg mikið upp úr prentuninni á myndunum mínum og nýt þess að dvelja löngum stundum í myrkraherberginu mínu, það er mín hugleiðsla. Ég læt hugann reika og gef ímyndunaraflinu lausan tauminn. Oft koma myndirnar allt öðruvísi út en ég hafði áætlað sem gerir ljósmyndaferlið bara meira spennandi … Flestar þeirra mynda sem mér þykir vænst um hafa orðið til þegar ég hef náð að fylgja innsæinu og ekki ákveðið of mikið fyrirfram hvernig myndirnar ættu að vera. Ég geri mér grein fyrir að það er nauðsynlegt að skipuleggja sig, sérstaklega þegar ferðast er til framandi staða en það er eins og það virki best fyrir mig að takast á við umfangsefnið eins og það kemur fyrir hverju sinni, láta hlutina gerast og vinna út frá því“

Jóna Þorvaldsdóttir lærði ljósmyndun við European Institute of Photography í Póllandi á árunum 1997-2000. Hún hefur búið víðsvegar um heim og hefur sótt fjölda ljósmyndanámskeiða einkum í sígildum ljósmyndunaraðferðum (alternative photography) m.a. “Handmade photograph” námskeið hjá Elisabeth Opalenik í The Workshops, Maine árið 2001, námskeið hjá Mary Ellen Mark í Mexíkó árið 2006, “Introduction to alternative processes” námskeið hjá Brenton Hamilton í The Workshops, Maine árið 2008 og haustið 2009 námskeið í bromoil blektækni hjá Daniel W. Lewis í Oregon í Bandaríkjunum.