Suðurgata 7 29.04.2011 to 01.09.2011

Buxur, vesti, brók og skó

Buxur, vesti, brók og skó var sýning í Suðurgötu 7 á Árbæjarsafni sumarið 2011. Á sýningunni mátti sjá heimagerð barnaföt frá ýmsum tímum. Þar var m.a. hægt að sjá heklaða og prjónaða kjóla, vélprjónaðar ullarnærbuxur, útsaumaðar stuttbuxur á stráka, marglita heklaða peysu, vatteraða útigalla og fleira.

Buxur, vesti, brók og skó

Í geymslum Minjasafns Reykjavíkur eru varðveittir margir góðir gripir. Algengastir eru nytjahluir af ýmsu tagi sem varpa ljósi á daglegt líf í Reykjavík, meðal annars flíkur á yngstu kynslóðina. Að koma ull í fat og mjólk í mat var hluti af heimilishaldi fyrrum en með breyttum samfélagsháttum og ört vaxandi þéttbýli færðist vinnan út af heimilinu. Áfram héldu þó konur, og stundum karlar, að búa til flíkur á heimilisfólkið þó ullarvinnslan sjálf færðist smám saman út af heimilinu. Nú sem aldrei fyrr hafa margir ánægju af því að prjóna, hekla og sauma á ungviðið. Það sem eitt sinn var nauðsyn er nú oftar en ekki farvegur fyrir sköpunarþrá og mikill gleðigjafi.
Á þessari sýningu mátti líta fjölbreyttar barnaflíkur. Flestar komu þær úr fórum safnsins en einnig voru á sýningunnu góðir lánsgripir. Allar flíkurnar áttu það sameignlegt að vera handgerðar. Mátti sjá prjón, hekl og saumur  í ýmsum útgáfum.