back

Sjónlýsing

29.08.2022 X

Sjónlýsing fyrir blinda og sjónskerta verður haldin á Árbæjarsafni laugardaginn 3. september kl. 15-16. Sjónlýsing er aðferð til að færa sjónræna hluti og upplifun í orð og lýsa fyrir þeim sem ekki geta séð með eigin augum.

Sjónlýsing

Þórunn Hjartardóttir og Guðbjörg H. Leaman verða með lýsinguna, en þær hafa unnið saman við sjónlýsingar síðan 2012, þegar fyrstu skipulögðu sjónlýsingarverkefnin á íslensku fóru fram hér á landi.

Árbæjarsafn er einstakur staður til að kynnast sögu Reykjavíkur og þær Þórunn og Guðbjörg munu lýsa sérstaklega völdum stöðum á safninu. Á safnsvæðinu eru fjölmörg hús sem hvert hefur sína sögu að segja og á safninu gefst tækifæri til að fá innsýn í daglegt líf Reykvíkinga fyrr á tímum.

Sjónlýsingin er ókeypis og er blint og sjónskert fólk boðið sérstaklega velkomið. 

Viðburðurinn er sprottinn úr samstarfsverkefninu Tökum höndum saman sem hlaut Öndvegisstyrk Safnasjóðs, þar sem Borgarsögusafn og Listasafn Reykjavíkur standa að fjölbreyttri dagskrá með lífsgæði að leiðarljósi.  

Aðgengi: Gangstígar á safnsvæðinu eru flestir sléttir malarstígar en sums staðar eru hellulagðar stéttir. Leiðsöguhundar eru velkomnir í safnið.
Strætisvagnar, leiðir 12 og 24, stoppa rétt við safnið. Leið 16 stoppar við Streng (5 mín. gangur) og leið 5 við Rofabæ (6 mín. gangur).

Meðfylgjandi ljósmynd er tekin inni í baðstofu Árbæjar og sýnir rúm, rokk og fleiri verkfæri til ullarvinnslu.