Þessi skýrsla inniheldur fornleifaskrá og húsakönnun fyrir skipulagssvæði í Elliðaárdal, norðan götunnar Stekkjarbakka. Skýrslan er unnin að beiðni Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur vegna vinnu við gerð deiliskipulags fyrir svæðið, sem er skilgreint sem þróunarsvæði (Þ47) í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Deiliskipulagssvæðið afmarkast til suðurs af götunni Stekkjarbakka, til austurs af götunni Höfðabakka, til vesturs af Reykjanesbraut og til norðurs af bökkum syðri kvíslar Elliðaánna.
Gerð er grein fyrir helstu atriðum í sögu og þróun svæðisins til dagsins í dag, sagt frá eldri og núverandi byggð og nýtingu svæðisins í gegnum tíðina. Skráð eru þau hús sem standa innan svæðisins og gerð grein fyrir verndarstöðu og mati á varðveislugildi þeirra. Jafnframt inniheldur skýrslan fornleifaskrá og varðveislumat fyrir fornleifar og yngri minjar á svæðinu.