back

Viðbrögð Borgarsögusafns við hertum sóttvarnareglum 31. júlí 2020

30.07.2020 X

Opnunartími Borgarsögusafns og allra fimm staða þess helst óbreyttur en leiðsagnir næstu tvær vikurnar falla niður. Viðburðadagskrá verður haldið úti eins og kostur er. Tryggður verður aðgangur að handsótthreinsi fyrir gesti og starfsmenn við innganga og í grennd við yfirborð sem margir snerta s.s. snertiskjái og afgreiðslukassa. Þá verður þrif aukin og yfirborð sótthreinsað eins oft og unnt er og gestir og starfsfólk minnt á einstaklingsbundnar sóttvarnir með merkingum og skiltum. Tryggt verður að ekki fleiri en 100 manns komi saman í sama rými.

Eftirfarandi breytingar á starfsemi Borgarsögusafns verða í gildi 31. júlí - 13. ágúst 2020 og jafnvel lengur ef yfirvöld telja ástæðu til:

  • Árbæjarsafn: Daglegar leiðsagnir falla niður og leikfangasýningin "Komdu að leika" verður lokuð. Viðburðadagskrá um verslunarmannahelgina helst óbreytt en 100 ára sýning Nóa Siríus verður lokuð til 7. ágúst.
  • Landnámssýningin: Daglegar leiðsagnir falla niður og fjölskylduhornið verður lokað. Leikjadagskrá laugardaginn 1. ágúst helst óbreytt enda er hún ætluð börnum, er utandyra og ekki er gert ráð fyrir mörgum.
  • Ljósmyndasafn Reykjavíkur: Safnið er lokað sunnudag og mánudag 2.-3. ágúst vegna verslunarmannahelgarinnar. Að öðru leyti helst starfsemin óbreytt.
  • Sjóminjasafnið í Reykjavík: Leiðsagnir um borð í Óðni falla niður. Að öðru leyti helst starfsemin óbreytt.
  • Viðey: Hugað verður vel að sóttvörnum um borð í ferjunni og í samræmi við sóttvarnareglur er mælst til þess að farþegar beri andlitsgrímu sem hylur nef og munn þar sem erfitt er að tryggja 2 metra á milli ótengdra. Hægt verður að kaupa grímu í miðasölu Eldingar á 350 kr. Viðeyjarstofa mun virða þær reglur sem settar hafa verið fyrir veitingastaði. Gert er ráð fyrir að ferjuáætlun og viðburðadagskrá haldist óbreytt.

Starfsfólk Borgarsögusafns hvetur alla til að virða sóttvarnareglur og óskar landsmönnum góðrar verslunarmannahelgar.

2 m