Kvosin – vagga leiklistar
Leikminjasafn Íslands opnaði nýja sýningu í húsinu Líkn í Árbæjarsafni á afmælisdegi Sigurðar málara (og Leikminjasafnsins) sunnudaginn 9. mars 2014. Sýningin er hluti af samstarfsverkefni Leikminjasafns Íslands og Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem hófst með sýningunni Jól í leikhúsinu í tengslum við jólahald Árbæjarsafns á aðventunni 2013.

Kvosin – Vagga leiklistar er yfirskrift hinnar nýju sýningar og byggir hún á samnefndri sýningu Leikminjasafnsins frá árinu 2009. Sýningin rekur sögu leiklistar sem á upphaf sitt í Kvosinni í Reykjavík og segir frá gömlu leikhúsunum, sem flest eru nú löngu horfin. Það á vel við að minnast þessa upphafs leiklistar í gömlu húsi sem eitt sinn stóð í Kvosinni, en Líkn stóð við Kirkjustræti í næsta nágrenni við gömlu leikhúsin.